Ríkiskaup fyrir hönd Rekstrarfélags stjórnarráðsbygginga hafa auglýst eftir tilboðum í staðbundna öryggisgæslu stjórnarráðsbygginga sem staðsettar eru við Arnarhól þ.e. Arnarhvál, Sölvhólsgötu 7, Sölvhólsgötu 4, Lindargötu 9 og Skuggasund 3. Væntanlegur verkkaupi skal leggja til sérþjálfaða öryggisverði sem sinna eiga öryggisgæslu í stjórnarráðsbyggingunum, en um er að ræða vöktun í húsakynnunum samkvæmt ákveðnu vaktaskipulagi.

Í útboðslýsingu eru settar upp fjórar mögulegar leiðir í vaktafyrirkomulagi og er óskað eftir tilboðum í þær allar. Ætlast er til að verkkaupi muni eiga og reka þau öryggiskerfi í stjórnarráðsbyggingunum sem öryggisverðir sjá um að vakta og bregðast við boðum frá en þau öryggiskerfi sem um ræðir eru brunaviðvörunarkerfi, innbrots- og vatnsviðvörunarkerfi, myndavélakerfi og aðgangsstýrikerfi.

Miðað er við að verktaki sjái um að leggja til allan mannskap og allan þann búnað sem ekki er tilgreint sérstaklega að verkkaupi leggi til og annað það sem þar til þess að sinna verkinu samkvæmt verklýsingu. Tilboðum ber að skila fyrir 29. júní næstkomandi en vettvangsskoðun fer fram í lok þessarar viku.