Það má segja að við borðið séu sestir þungavigtarmenn þegar kemur að öryggismálum en öll stýra þau fyrirtækjum sem lagt hafa mikla áherslu á öryggismál og hafa raunar náð miklum árangri, hvert hjá sínu fyrirtæki.

Þannig byrjar úttekt Viðskiptablaðsins um öryggismál. Þar er meðal annars rætt við fjóra forstjóra sem öll hafa látið sig öryggismál mikið varða. Þetta eru þau Einar Þorsteinsson, forstjóri járnblendiverksmiðjunnar Elkem á Grundartanga, Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs, og Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.

Það fer heldur ekki á milli mála að öryggismálin eru þeim hjartans mál og að þau hafa af miklu að miðla í þeim efnum. Aðspurð segir Sigrún að VÍS sé mjög umhugað um forvarnir og öryggismál og vilji vera virkur þátttakandi í að efla öryggismál fyrirtækja.

„Við viljum miðla þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur í gegnum öll fyrirtækin sem eru í tryggingu hjá okkur. Gott dæmi um það er að VÍS heldur 2. febrúar forvarnarráðstefnu um öryggismál fyrirtækja í þriðja sinn. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé orðin fjölsóttasta ráðstefnan um öryggis- og forvarnarmál sem haldin er hér á landi.“

Nánar er fjallað um þetta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.