Einn mikilvægasti eðlisþáttur fjórðu iðnbyltingarinnar felst í nýtingu gagna sem liggja nú þegar fyrir og safnast áfram upp um ókomin ár. Að tryggja netöryggi og gagnaöryggi er stærsta áskorun sem fyrirtæki standa frammi fyrir. Það eru engin landamæri í tölvuglæpum og óprúttnir aðilar leita stöðugt að veikleikum í kerfum til að geta brotist inn og aflað sér verðmætra upplýsinga.

„Áþreifanlegi veruleikinn og sýndarveruleikinn eru í auknum mæli að tvinnast saman, landamærin þarna á milli eru að hverfa og furðu stutt þangað til manneskjur verða nánast beintengdar við tölvuheiminn og samfélagsmiðla,“ segir Sigurgísli Melberg, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Opinna kerfa, þegar áhrifa fjórðu iðnbyltingarinnar ber á góma.

Sigurgísli segir að fyrirtæki hérlendis sem erlendis standi í auknum mæli frammi fyrir nauðsyn þess að breytast í tæknifyrirtæki, óháð starfseminni sem þau stunda. Tæknilegu spurningarnar snúi m.a. að því hvernig fyrirtækin nái til viðskiptavina sinna, hvernig þau fá gögn frá þeim um þarfir þeirra og óskir og hvernig þau vinna úr upplýsingunum.

„Einn mikilvægasti eðlisþáttur fjórðu iðnbyltingarinnar felst í nýtingu þeirra gagna sem liggja nú þegar fyrir og safnast áfram upp um ókomin ár,“ segir Sigurgísli.

„Árum saman hafa gögn og upplýsingar dælst inn í fyrirtækin en tæknin til að nýta þau til fulls hefur ekki verið til staðar. Núna er þetta að breytast og við getum greint t.d. kauphegðun mjög ítarlega og nýtt þær greiningar til að sigta viðskiptavininn betur út og kortleggja hann. Við getum tekið dæmi af verslun á borð við Amazon Go. Um leið og viðskiptavinur stígur þar inn fyrir í annað skipti er tæknilega auðvelt að sýna honum auglýsingar á leið sinni um búðina um vörur sem hann sýndi áhuga í fyrri heimsókn sinni eða keypti – því að vitneskjan um fyrri heimsókn hans er skrásett til hlítar. Hafi hann t.d. keypt appelsínur seinast fær hann að vita að ný sending af appelsínum hafi verið að berast. Þannig fær viðskiptavinurinn meiri hjálp og þjónustu en áður.“

Gróðurháhýsi í miðri borg

Raunar hefur talsvert verið fjallað í fjölmiðlum um Amazon Go-verslunina sem var opnuð í ársbyrjun í Seattle í Bandaríkjunum og byggir á að sími kaupandans er skráður þegar hann gengur inn í búðina og þegar hann gengur út aftur með vöruna er hún gjaldfærð sjálfvirkt. Enginn starfsmaður á kassa kemur við sögu. Amazon hefur nú þegar kynnt áform um að opna fleiri slíkar verslanir á næstu mánuðum.

Eru starfsmannalausar búðir framtíðin í smásölu?

„Örugglega að einhverju leyti en ég held að stór hluti smásölunnar færist líka yfir á Netið. Fólk pantar þar, pöntunin er afgreidd í stórum vöruhúsum sem eingöngu eru búin róbótum og varan annaðhvort keyrð heim til kaupandans eða á vinnustað hans, eftir hentugleikum hans. Núna er verið að gera tilraunir í Finnlandi með framleiðslu og sölu ferskra matvæla, en það er gamalkunnug staðreynd að stærsti vandinn samfara sölu á þeim er hversu langt þarf að flytja vöruna á milli staða.

Finnarnir horfa þá til þeirrar lausnar að byggja gróðurhús í miðri borg, á eins mörgum hæðum og þörf krefur, jafnvel háhýsi, gera gróðurhúsin hundrað prósent sjálfvirk og ferlið endar á að ferskt grænmeti rennur á færibandi út í vörubíl og þaðan rakleiðis til neytenda, sama dag og grænmetið var tekið úr moldinni. Við getum borið þetta saman við kannski 10-20 daga sem líða frá grænmetisuppskeru einhvers staðar erlendis og þangað til grænmetið er komið í íslenska verslun.“

Komust inn um loftræstikerfi

Sigurgísli segir að fyrirtæki þurfi að átta sig á mikilvægi upplýsingatækninnar, hvernig hún nýtist í rekstrinum, taka henni opnum örmum og skilgreina þarfir sínar. Þau þurfi að aðlagast breyttum veruleika, ekki endilega í stórum stökkum en hægt og rólega.

„Öðru máli gegnir auðvitað ef samkeppnisaðilinn tekur fram úr vegna þess að hann er kominn með stafrænt forskot, þá er ekkert annað í boði en að hátæknivæðast með hraði,“ segir hann ákveðinn.

„Fyrirtækin þurfa síðan sérstaklega að huga að öryggismálum, hvernig þau vista gögnin og meðhöndla þau. Það eru engin landamæri í tölvuglæpum og óprúttnir aðilar leita stöðugt að veikleikum í kerfum til að geta brotist inn og aflað sér verðmætra upplýsinga. Stærsti þjófnaður seinustu ára á greiðslukortaupplýsingum varð hjá Target-verslunarkeðjunni, og fór þannig fram að þjófarnir komust inn gegnum tölvuvætt loftræstikerfi, stálu gögnunum úr afgreiðslukerfinu og fluttu þau síðan út í gegnum nettengda prentara!

Flest allt er nettengt í nútíðinni og í framtíðinni verður allt tengt Netinu. Að tryggja netöryggi og gagnaöryggi er stærsta áskorun sem fyrirtæki standa frammi fyrir í nútímanum og það á við hér og nú en ekki í fjarlægri framtíð. Þróunin í þessum efnum er með ólíkindum hröð og Opin kerfi hafa til dæmis sérsveit af mönnum á sínum snærum sem vinna alfarið við gagnaöryggi, aðstoða fyrirtæki við að greina öryggisþætti og snögga bletti, gefa ráð um hvað má betur fara og bregðast við hættum. Við horfum á þann möguleika að mjög viðkvæm gögn verði geymd í náinni framtíði í gagnaverum sem tengjast ekki Netinu og gögn verði flutt í gegnum lokaðar leiðslur, eins og reyndar er nú þegar gert hjá mörgum fjármálastofnunum.“

Kalt vatn á milli skinns og hörunds

Eins og þú bendir á er stöðugt torveldara að tryggja gagnaöryggi í þessum nýja veruleika, samfara því hversu frjálslega einstaklingar fara með persónulegar upplýsingar sínar annars vegar, og hins vegar hversu stíf ásókn fyrirtækja, leyniþjónusta og aðila með illt í hyggju er í þær – er það yfirhöfuð hægt?

„Söfnun og miðlun upplýsinga er stóriðnaður í nútímanum og þessar upplýsingar ganga kaupum og sölum fyrir óheyrilegar fjárhæðir. Persónuverndarsjónarmið sem hafa löngum verið ríkjandi eru að láta undan og við erum sífellt oftar að afhenda óviðkomandi aðilum upplýsingar um einkahagi okkar, upplýsingar sem við töldum áður til persónulegustu þátta en eru allt í einu orðin eftirsótt markaðsvara.

Þegar við kaupum síma til dæmis getum við ekki notað hann fyrr en við höfum samþykkt notendaskilmála sem veita símafyrirtækinu heimild til að kveikja á hljóðnemanum og myndavélinni á honum, og sama máli gegnir um samfélagsmiðla. Google má t.d. kveikja á vefmyndavélinni í tölvunni þinni þegar og ef Google hentar og sömuleiðis framleiðendur snjallsjónvarpa.

Í raun og veru eru eftirlitsmyndavélar lögreglunnar sem margir óttast minnsta málið þegar kemur að verndun einkalífs; það eru snjallsímarnir sem ógna persónuverndinni langmest. Ekki aðeins vegna myndavélanna í þeim heldur líka vegna staðsetningarbúnaðarins og skráningarinnar sem fer fram á innihaldi þeirra og notkun.“

Nánar er fjallað um málið í Fjórðu iðnbyltingunni, nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og Viðskiptablaðsins. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected].