„Varsla viðkvæmra persónuupplýsinga á vef Vodafone utan skilgreinds fjarskiptakerfis og tilheyrandi öryggisráðstafana getur því vart talist annað en stórkostlegt gáleysi af hálfu félagsins,“ segir í álitsgerð Skúla Sveinssonar lögmanns sem unnin var fyrir hönd Málsóknarfélags vegna leka af vef Vodafone.

Tilgangur álitsgerðarinnar er að varpa ljósi á hvort Vodafone beri skaðabótaábyrgð á tjóni vegna leka á gögnum frá félaginu. Í álitsgerðinni er meðal annars sett fram sú skoðun að ekki verði annað séð en að tæknistjóri Vodafone hafi staðfest að öryggismálum vefs Vodafone hafi ekki verið sinnt sem skyldi og að félagið hafi gert stór mistök varðandi öryggismál vefsins. Eru öryggismál vefs Vodafone sögð óforsvaranleg í ljósi upplýsinganna sem voru geymd á vefnum og tilrauna til að brjótast inn á vefinn.

Segir í álitsgerðinni að það sé niðurstaða lögmanns Málsóknarfélagsins að Vodafone eigi sök á að ótilteknum aðila eða aðilum hafi tekist að brjótast inn á vef Vodafone og hafi bakað sér skaðabótaábyrgð.