Reykjavíkurborg hefur samið við Öryggismiðstöðina til næstu fimm ára um áframhaldandi öryggisþjónustu fyrir borgina.

Samstarf borgarinnar og Öryggismiðstöðvarinnar í öryggismálum hefur staðið yfir allt frá árinu 2006. Samningurinn felur í sér að Öryggismiðstöðin vaktar allt húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar til næstu fimm ára. Öryggiskerfi alls húsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar er tengt stjórnstöð Öryggismiðstöðvarinnar og útkallsþjónusta hluti af samningi þessum.

,,Við erum afar ánægð með þennan samning við borgaryfirvöld um áframhaldandi samstarf. Þetta er mjög stórt og umfangsmikið verkefni og snýr að vöktun á öllum stofnunum, grunnskólum, leikskólum, þjónustumiðstöðvum og skrifstofum Reykjavíkurborgar. Við höfum átt afar farsælt samstarf við borgina sl. 12 ár og hlökkum til áframhaldandi þjónustu. Margt hefur breyst í öryggismálum á þessum tíma en við erum stolt að því að gera boðið upp á tæknivæddustu öryggiskerfi sem völ er á markaðnum í dag m.a. Snjallöryggi sem er nýjasta kynslóð af öryggiskerfum. Snjallöryggi ver húsnæði enn betur og gerir notendum kleift að stjórna öryggiskerfinu í gegnum app í snjallsíma. Við appið er hægt að tengja eftirlitsmyndavélar, snjallperur og snjalltengi sem gera notanda kleift að kveikja og slökkva á raftækjum, jafnvel þó það sé ekki statt á staðnum," segir Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Öryggismiðstöðinni.