Rúmlega 200 þúsund króna endurgjald lögmanns fyrir rúmlega átta stunda vinnu, við beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar manns á áttræðisaldri, er ekki úr hófi. Þá þótti lögmaðurinn ekki hafa farið á svig við lög eða siðareglur með vinnu sinni. Þetta er mat úrskurðarnefndar lögmanna.

Aðdragandi málsins er sá maðurinn var ákærður fyrir hatursorðræðu vegna ummæla sem hann ritaði í athugasemdakerfi Vísis í tengslum við umræðu um hinseginfræðslu í Hafnafjarðarbæ.

„Við hlustendur útvarps Sögu kærum okkur ekki um neinar fjandans útskýringar [X] á þessari kynvillu. Þetta er ógeðslegt. Að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu. [X] getur þess vegna setið heima hjá sér heldur en að troða sér inn á útvarp Sögu. Þvílíkt ógeð,“ ritaði maðurinn við grein á Vísi um málið.

Málið fór á endanum fyrir Hæstarétt sem kvað upp dóm sinn í desember 2017. Þar var maðurinn sakfelldur fyrir ummælin og dæmdur til að greiða 100 þúsund króna sekt í ríkissjóð en sæta ella átta daga fangelsi. Þá var hann dæmdur til að greiða sakarkostnað, áfrýjunarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, tæplega 882 þúsund krónur. Einn dómari af þremur skilaði sératkvæði og taldi að sýkna ætti manninn.

Bágborin heilsa og tekjur frá Tryggingastofnun

Eftir að dómurinn lá fyrir sendi lögmaðurinn umsókn til sýslumanns þar sem hann fór fram á að sakarkostnaður yrði felldur niður. Var það stutt þeim rökum að tekjur hins sakfellda, sem var kominn á áttræðisaldur við uppsögu dómsins, árin fyrir og eftir uppkvaðningu dómsins hefði hann engar tekjur haft aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði sínum. Þrátt fyrir það var voru tekjur hans yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru í viðmiðunarreglum um efnið og beiðninni hafnað.

Þegar sú niðurstaða lá fyrir útbjó lögmaðurinn kæru til dómsmálaráðuneytisins vegna þessa en sú kæra var ein blaðsíða að lengd. Í kærunni var byggt á því að maðurinn væri eignalaus öryrki sem treysti alfarið á lífeyrisgreiðslur og greiðslur frá TR. Þá væri heilsufar hans einnig ekki upp á sitt besta. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun sýslumanns og taldi að þótt heilsa mannsins væri bágborin hefði ekki verið leitt í ljós að hann gæti ekki staðið undir greiðslu sakarkostnaðar.

Í lok október 2018 sendi lögmaðurinn reikning til mannsins vegna vinnu við kæruna. Hljóðaði hann upp á 8,25 klukkustunda vinnu og tímagjald 20 þúsund krónur auk virðisaukaskatts. Allt í allt tæplega 205 þúsund krónur. Maðurinn greiddi inn á reikninginn í nokkur skipti, alls 190 þúsund.

Í september í fyrra sendi maðurinn lögmanninum bréf og fór fram á endurgreiðslu. Lögmaðurinn hefði mátt vita það að kæran til ráðuneytisins myndi tapast enda hefðu tekjur hans verið langt yfir viðmiðunarmörkunum. Vinnan hefði því verið tilgangslaus frá upphafi. Lögmaðurinn hafnaði því að endurgreiða fjármunina en afskrifaði eftirstöðvar reikningsins.

Maðurinn sætti sig ekki við þá niðurstöðu og leitaði til úrskurðarnefndar lögmanna. Var þess krafist að reikningurinn yrði felldur niður og lögmaðurinn látinn sæta agaviðurlögum. Benti maðurinn á að árstekjur sínar árið 2017 hefðu verið tæpar 4,2 milljónir króna en viðmiðunarmörkin hefðu verið lægri sem nemur um tveimur milljónum króna. Umbeðið verk hafi því verið tilgangslaust.

Lögmaðurinn taldi niðurstöðu ráðuneytisins vafasama

Lögmaðurinn taldi á móti að fullt tilefni hefði verið til að sækja um niðurfellingu sakarkostnaðar enda ætti dómþolinn litlar eignir og væri öryrki. Niðurfellingarskilyrðin væru mjög óskýr og matskennd fullt tilefni til að láta reyna á þau. Þá var það áréttað að umræddar fjárhæð viðmiðunarreglnanna væri, líkt og heitið gefur til kynna, til viðmiðunar en ekki fortakslaust skilyrði. Umrædd kæra hefði verið send að beiðni mannsins þótt hann hefði vitað að hann hefði verið yfir mörkunum. Lögmaðurinn taldi einnig að niðurstaða ráðuneytisins hefði verið afar vafasöm og því hefði hann ráðlagt skjólstæðingi sínum að leita til umboðsmanns Alþingis vegna þessa. Það hafi hann hins vegar afráðið að gera ekki.

Að mati úrskurðarnefndarinnar lá fyrir að hinn sakfelldi hefði óskað eftir því við lögmanninn að hann myndi vinna að téðri umsókn og seinna meir að kærunni. Með hliðsjón af málsgögnum var það mat nefndarinnar að ekki væri hægt að slá því föstu að vinna lögmannsins hefði verið tilgangslaust. Var vísað til þess að í úrskurði ráðuneytisins var ekki eingöngu byggt á tekjum mannsins heldur aðstæðum í heild. Einnig var á því byggt að maðurinn vissi af tilvist viðmiðunarreglnanna þegar hann fól lögmanninum að útbúa kæruna.

„Að mati nefndarinnar var áskilið tímagjald [lögmannsins] ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi sem reikningurinn tók til hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá athugun, gagnaöflun og skjalagerð sem leggja verður til grundvallar að [lögmanninum] hafi verið falið að sinna í þágu [hins sakfellda] vegna kröfugerðar fyrir sýslumannsembætti annars vegar og ráðuneyti hins vegar um niðurfellingu sakarkostnaðar,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Kröfu um niðurfellingu reikningsins var því hafnað og þá þótti ekki tilefni til að lækka þóknunina til lögmannsins. Reikningurinn þótti hæfilegur og leiddi sú niðurstaða til þess að ekkert agabrot hefði átt sér stað.