Frá því að hlutabréf Haga voru skráð á markað í kjölfar hlutafjárútboðs í desember 2011 hafa ellefu félög til viðbótar verið skráð á Aðalmarkað kauphallar Nasdaq Iceland að undangengnum hlutafjárútboðum. Alls hafa hlutabréf verið seld fyrir 83,5 milljarða króna í þessum útboðum, en samanlögð eftirspurn í þeim nemur hins vegar rúmum 700 milljörðum króna.

Til lengri tíma litið hafa þau flest heppnast vel, að því leyti að gengi íslenskra hlutabréfa hefur hækkað verulega og á það jafnvel við þegar ekki er tekið tillit til þátta eins og arð- greiðslna og kaupa á eigin bréfum. Það breytir því hins vegar ekki að mörg útboðanna hafa sætt harðri gagnrýni þegar þau hafa staðið yfir og í kjölfar þeirra. Gagnrýnin hefur verið misjöfn og á mismunandi forsendum en hægt er að fullyrða að meirihluti hlutafjárútboða eftir hrun hafi verið gagnrýndur og í sumum tilvikum hefur Fjármálaeftirlitið sagst munu skoða málið.

Arion banki hefur séð um fimm af þessum tólf útboðum og Íslandsbanki hefur séð um sjö til viðbótar, annaðhvort einn eða í samvinnu við aðra banka. Landsbankinn hefur komið að tveimur útboðum og Straumur að einu.

Hætta á innherjaviðskiptum

Fyrsta útboð hagsveiflunnar sem enn sér ekki fyrir endann á var útboð á hlutabréfum í Högum í desember 2011. Umsjónaraðili útboðsins var Arion banki og voru 30% hlutafjár í félaginu seld fyrir rúma 4,9 milljarða króna. Snemma súrnaði stemningin á markaði þegar í ljós kom að vegna endurútreiknings gengistryggðra lána mætti búast við því að hagnaður Haga á yfirstandandi ári yrði 25% meiri en búist var við. Upplýsingar um endurútreikninga Arion banka á gengistryggðum lánum félagsins voru birtar eftir að útboðinu lauk.

Var rætt um það í fjölmiðlum að hugsanlega hefðu einhverjir starfsmenn búið yfir meiri upplýsingum um félagið en aðrir fjárfestar og hafi það boðið hættunni á innherjaviðskiptum heim. Arion banki hafnaði slíkum aðdróttunum hins vegar alfarið í yfirlýsingu sem send var frá bankanum. Þeim starfsmönnum sem bjuggu yfir verðmótandi upplýsingum hafi verið meinað að taka þátt í útboðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .