Ellefu dögum eftir að Alþingi samþykkti heimild til að endurlána Íslandspósti ohf. (ÍSP) allt að 1,5 milljarða króna sendu Endurlán ríkissjóðs fyrirtækinu tilkynningu um veðkall þar sem hlutfall skulda og trygginga var ófullnægjandi. Að mati Ríkisábyrgðasjóðs hefur félagið ekki verið rekstrarhæft um nokkurt skeið.

Fyrir áramót samþykkti þingið að lána allt að 1,5 milljarða til ÍSP en komi til þess, það er umfram 500 milljóna neyðarlánið, verður lánið bundið ýmsum skilyrðum. Fjárlaganefnd bað Ríkisendurskoðun um stjórnsýsluúttekt á félaginu og var henni skilað í fyrradag. Áður, það er árið 2017, hafði þáverandi ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, boðið stjórn ÍSP að vinna slíka úttekt meðal annars til að „slá á óréttmætar ásakanir“.

Í skýrslu ríkisendurskoðanda er rakið að upplýsingagjöf framkvæmdastjórnar til stjórnar hafi verið ábótavant og að samskipti þar á milli hafi verið stirð. Kristallast það einna helst í því að framkvæmdastjórn og stjórn skila hvor inn sinni athugasemd við skýrsluna. Þá hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að „spurningaglöðum“ stjórnarmönnum hafi reglulega verið skipt út. Að endingu er vert að nefna að í skýrslunni er tekið fram að tekjur einkaréttar hafi verið nýttar til að niðurgreiða þjónustu í samkeppnisrekstri, að sérstaka eigandastefnu fyrir félagið vanti og gagnrýnt að álit Samkeppniseftirlitsins á lánveitingunni hafi ekki legið fyrir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .