Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir það skýran vilja flokksins að vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið fyrr en síðar.


Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði hins vegar í samtali við RÚV og Bylgjuna um helgina að hann sæi ekki endilega fyrir sér að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram.

„Ég er algjörlega ósammála orðum utanríkisráðherra,“ segir Ragnheiður í samtali við Fréttablaðið um þá skoðun Gunnars Braga. Hún segir þó ekki hægt að segja að risið sé upp deilumál innan ríkisstjórnarinnar.


Gunnar Bragi sagði í samtali við RÚV í morgun að aðildarviðræður við Evrópusambandið væri ekki stærsta viðfangsefni utanríkisþjónustunnar. Til að mynda þyrfti að klára fríverslunarsamning við Kína og fleira.