Sveitarfélögin hafa sætt gagnrýni undanfarið fyrir fyrirhugaða hækkun á fasteignaskatti í fjárhagsáætlun næsta árs, en hækkunin er sögð brjóta í bága á við yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) í tenglsum við lífskjarasamningana síðastliðið vor. Af samtölum Viðskiptablaðsins við fulltrúa ASÍ og SÍS að dæma leggja aðilarnir ekki sama skilning í yfirlýsinguna og ber nokkuð á milli.

Yfirlýsingin var undirrituð 3. apríl sl. og í henni beinir SÍS þeim tilmælum til sveitarfélaganna að þau hækki ekki gjaldskrár sínar meira en 2,5% á næsta ári, og minna ef verðbólga verði lægri. Með þessu tóku sveitarfélögin þátt í að stuðla að verðstöðugleika sem væri forsenda þess að samningarnir myndu halda.

ASÍ minnir á yfirlýsinguna í frétt á vef sambandsins í vikunni. Þar segir að sveitarfélögin verði nauðsynlega að lækka álagningu sína ef hækkanir á fasteignagjöldum eigi að vera innan við 2,5% eins og kveðið er á um í yfirlýsingunni, en hún er sögð hafa vegið þungt í heildarniðurstöðu kjarasamninganna.

Þess má geta að Félag atvinnurekenda, Landssamband eldri borgara og Húseigendafélagið birtu sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem tekið er undir með áskorun ASÍ.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri SÍS, segir í samtali við Viðskiptablaðið ekki rétt að sú hækkun á fasteignaskatti sem boðuð sé í fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaganna brjóti í bága við lífskjarayfirlýsinguna. Og gildir einu að hækkunin verði víða umtalsvert meiri en 2,5%.

„Yfirlýsingin tekur eingöngu til gjaldskrár sveitarfélaganna vegna þjónustutekna, það er að segja gjöld vegna sorphirðu, leiksskóla, hitaveitna o.s.frv.,“ segir Karl Björnsson og bætir við að aðrir tekjustofnar sveitarfélaganna; útsvar, fasteignaskattar og framlög úr jöfnunarsjóði, séu undanskildir í yfirlýsingunni. „Af þessum sökum er fjárhagsáætlun sveitarfélaganna ekki í andstöðu við skuldbindingar okkar frá því í vor.“

Tekjur vegna þjónustugjalda eru í kringum 15% af heildartekjum sveitarfélaganna, að sögn Karls. „Það er samt vert að hafa í huga að Sambandið getur ekki skuldbundið sveitarfélögin, þar sem hvert og eitt sveitarfélög hefur sinn sjálfsstjórnarrétt. Við getum á hinn bóginn hvatt þau til góðra verka,“ segir Karl Björnssonþ

Drífa Snædal segir Alþýðusambandið ekki hafa skilið yfirlýsinguna eins og Karl lýsir hér að ofani. „Það kemur mér á óvart að heyra að sveitarfélögin túlki yfirlýsinguna á þennan veg. Þetta er sannarlega ekki í samræmi við þann skilning sem við lögðum í hana við undirritun kjarasamninganna. Við skildum það þannig að sveitarfélögin ætluðu að standa vörð um  stöðugleika í verðlagi þannig að kostnaður á launþega myndi ekki aukast á samningstímanum. Þetta eru auðvitað ekkert annað en hártoganir en yfirlýsingin er um eitthvað allt annað ef þetta er skilningur sveitarfélaganna. Launafólk munu ekki sætta sig við kostnaðarhækkanir af hálfu sveitarfélaganna því í okkar augum væri það skýlaustbrot á samningunum.