Hinn 30. október 2009 tóku gildi nýjar reglur um gjaldeyrishöft, reglur nr. 880/2009, hjá Seðlabankanum og er markmið þeirra eftirfarandi: „... að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagns-hreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast til og frá landinu sem valda að mati Seðlabanka Íslands alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum.“ Með innleiðingu þessara reglna voru gjaldeyrishöftin hert og tóku þau einnig til flutnings svokallaðra aflandskróna til landsins en allar krónur sem keyptar voru erlendis eftir hinn 28. nóvember 2008 voru þar með skilgreindar sem aflandskrónur.

Í erindi sínu á skattadegi endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte í janúar sl. nefndi Hólmfríður Kristánsdóttir, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði fyrirtækisins, dæmi þess efnis að Seðlabankinn mismunaði fyrirtækjum um innfluttning á aflandskrónum til landsins. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hólmfríður segir dæmið varða konu sem fékk heimild til þess að flytja inn aflandskrónur frá Lúxemborg og var ákvörðun Seðlabankans rökstudd með því að hægt hefði verið að sýna fram á að eignarhald fjárins hafi verið óslitið síðan áður en gjaldeyrishöftin voru sett á. „Seðlabankinn hefur mjög ríkar túlkunarheimildir á reglunum og úrskurðir þeirra eru misvísandi sem gerir aðilum mjög erfitt fyrir að átta sig á hvað er heimilt og hvað ekki,“ segir hún.

Þannig hefur Seðlabankinn, að sögn Hólmfríðar, neitað umsókn fyrirtækis um innflutning á aflandskrónum sem keyptar voru fyrir setningu fyrstu gjaldeyrishaftanna haustið 2008 á þeirri forsendu að ákvörðun um fjárfestingu var tekið um miðjan desember 2009 og að sama skapi hefur umsókn um innflutning á aflandskrónum sem voru keyptar árið 2009 og sendar til landsins með greiðslufyrirmælum áður en reglur 880/2009 voru settar. Þá er það vitað að fyrirtæki hafa fengið undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna fjárfestingar erlendis, þ.e. útflutningur á gjaldeyri, en hvað er það sem ræður því hvort þeir sem um sækja fái undanþágu?

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.