Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segist hafa hugsað til starfsmanna bankans þegar Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýndi íslensku bankanna fyrir mikinn hagnað sem virtist ekki skila sér í skuldaleiðréttingar til almennings.

Birna sagði að starfsmenn bankans hefðu undanfarið verið að gera sitt besta til að hjálpa fólki við mjög óvenjulegar aðstæður. Þegar rýnt væri í tölur væri búið að fella niður og afskrifa mjög mikið af lánum til einstaklinga. Tók hún dæmi um leiðir sem fólki stæði til boða. Gagnrýni Jóhönnu væri því ósanngjörn.

Þetta kom fram í viðtali við Birnu á morgunvaktinni í Ríkisútvarpinu.

Birna sagði uppgjör bankanna flókin vegna þess að þeir hefðu keypt lánasöfn af gömlu bönkunum. Þessi lán þyrfti að greiða til baka og hún viðurkenndi að skýra þyrfti betur hvernig þessi hagnaður væri tilkominn. Vísar hún þar í að stór hluti hagnaðar bankanna hefur verið vegna uppfærslu á lánasöfnum sem keypt voru með miklum afslætti. Birna benti á að uppfærslur á lánasafni Íslandsbanka hefðu verið teknar í gegnum rekstrarreikning og borgað af þeim skatta til ríkisins.

Freyr Einarsson spurði hvort málflutningur stjórnmálamanna um þessi mál einkenndist af lýðskrumi og þeir vissu betur sagði Birna að svo virtist sem eina málið sem sameinaði stjórn og stjórnarandstöðu væri gagnrýni á bankana. Íslandsbanki hefði boðið mörgum af þeim sem tjá sig um þessi mál í heimsókn til að útskýra hvað bankinn væri að gera.