Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) lýsa í orðsendingu yfir þungum áhyggjum „vegna skyndilegra frétta af innanlandsflugi til og frá Bíldudal." Flugfélagið Ernir hafi þjónað Vestfirðingum í 50 ár við afar krefjandi aðstæður og nýlegar fréttir um að nú eigi félagið skyndilega að hverfa af vettvangi eftir umdeilt útboð séu reiðarslag fyrir svæðið.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá mun Norlandair taka við af Erni í flugi til tveggja áfangastaða á Vestfjörðum. Vegagerðin samdi við Norlandair um að taka við fluginu milli Reykjavíkur annars vegar og Gjögur og Bíldudals á Vestfjörðum hins vegar.

Upphaflega var Norlandair einnig úthlutað flugleiðinni til Hafnar af Vegagerðinni en eins og Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan september kærði Ernir útboð Vegagerðarinnar á flugleiðunum þremur þar sem félagið hafi átt lægsta tilboðið í flugið til Hafnar. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær mun Ernir, eftir mikið japl, jaml og fuður, áfram sinna innanlandsfluginu til Hafnar í Hornafirði eftir samninga við Vegagerðina þess efnis.

Í orðsendingu SASV, sem stíluð er á á samgönguyfirvöld, Samgönguráðherra, Vegagerðina, Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp og fjölmiðla, segir jafnframt að Ernir hafi veitt afbragðs þjónustu og séu með flugvélar sem henti þessari þjónustu afar vel. „Í staðinn á að bjóða helmingi minni flugvél sem búin er jafnþrýstibúnaði og 50 ára gamall Twin Otter án jafnþrýstibúnaðs. Í samanburði er þetta stökk niður á við í þjónustustigi og með ólíkindum að í útboði þar sem munar svo litlu sem raun ber vitni skuli þjónustustig og gæði flugflotans ekki hafa meira að segja. Í útboðum í vegagerð er lægsta tilboði ekki alltaf tekið eins og raun ber vitni í nýlegu útboði Vegagerðarinnar." Sigurður Viggósson, formaður SASV, er skráður fyrir erindinu fyrir hönd stjórnar samtakanna.

Erindi SAVS má sjá í heild sinni hér að neðan:

Til samgönguyfirvalda, Samgönguráðherra, Vegagerðin, Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps og fjölmiðla.

Flugþjónusta við sunnanverða Vestfirði.

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) lýsa yfir þungum áhyggjum vegna skyndilegra frétta af innanlandsflugi til og frá Bíldudal. Fréttirnar bárust að morgni 10. nóvember um að nýtt félag á að hefja flug á Bíldudal 16. nóvember nk.

Flugfélagið Ernir hefur þjónað Vestfirðingum í 50 ár við afar krefjandi aðstæður og nýlegar fréttir um að nú eigi félagið skyndilega að hverfa af vettvangi eftir umdeilt útboð er reiðarslag fyrir svæðið. Ernir hafa veitt afbragðs þjónustu og eru með flugvélar sem henta þessari þjónustu afar vel. Í staðinn á að bjóða helmingi minni flugvél sem búin er jafnþrýstibúnaði og 50 ára gamall Twin Otter án jafnþrýstibúnaðs. Í samanburði er þetta stökk niður á við í þjónustustigi og með ólíkindum að í útboði þar sem munar svo litlu sem raun ber vitni skuli þjónustustig og gæði flugflotans ekki hafa meira að segja. Í útboðum í vegagerð er lægsta tilboði ekki alltaf tekið eins og raun ber vitni í nýlegu útboði Vegagerðarinnar.

SASV bendir á að fraktflug s.s með varahluti fram og til baka, sýni frá fyrirtækjunum, framleiðsluafurðir og ýmislegt annað sem mikilvægt er að komist á milli staða með litlum fyrirvara er risavaxið atriði fyrir atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum. Með þeim flugflota sem boðið verður upp á er ekki mögulegt að sinna þessari mikilvægu þjónustu sem atvinnulífið getur ekki verið án.

Ekki sér fyrir endann á óboðlegri þjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegir á svæðinu og inn á það eru meira og minna ónýtir. Vetrarþjónusta hefur verið í lamasessi miðað við þá umferð og þá sérstaklega verðmæta þungaumferð sem er um svæðið. Nýlega tókst að koma í veg fyrir að nýjum snjóblásara væri skipt út fyrir gamlan snjóblásara til að þjónusta svæðið. Ferjan yfir Breiðafjörð er eldgömul og getur stoppað hvenær sem er með tilheyrandi áhættu. Nú eiga sunnanverðir Vestfirðir að sætta sig við minni og eldgamlar flugvélar í stað þeirra sem nú þjónusta svæðið.

Á sama tíma og mikill uppgangur hefur verið í atvinnulífinu á svæðinu undanfarin ár og útflutningstekjur margfaldast og eru orðnar þær hæstu per íbúa á landinu, getur stjórn SASV ekki samþykkt svona vinnubrögð og mótmælir þessari ráðstöfun harðlega.