Á fundi sínum fyrir helgi samþykkti stjórn Sorpu að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar. Þá staðfesti dómurinn 45 milljóna króna sekt vegna brota Sorpu á samkeppnislögum.

Málið teygir sig allt aftur til ársins 2012 þegar Samkeppniseftirlitið sektaði Sorpu  (sem er byggðasamlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) um 45 milljónir vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sinni á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs. Misnotkunin fólst í því að Sorpa veitti eigendum sínum, sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og Sorpstöð Suðurlands, hærri afslætti en öðrum viðskiptavinum.

Með heimild í samkeppnislögum beindi Samkeppniseftirlitið þeim fyrirmælum til Sorpu að byggðasamlagið endurskoðaði gjaldskrá fyrir þjónustu sína og viðskiptasamninga sína í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Sorpa kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem í mars árið 2013 staðfesti ákvörðunina. Þá skaut Sorpa úrskurði áfrýjunarnefndar til Héraðsdóms Reykjavíkur sem í síðasta mánuði staðfesti þá niðurstöðu að fyrirtækið hefði með háttsemi sinni misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að mismuna viðskiptavinum sínum með ólíkum afsláttarkjörum.

Sorpa hefur sem sagt núna áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.