Hópur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Skagafjarðar hafa sent frá sér yfirlýsingu.

„Fjármálaeftirlitið hefur nú birt úrskurð sinn varðandi yfirtöku Sparisjóðs Siglufjarðar á Sparisjóði Skagafjarðar um 7 mánuðum eftir umdeildan fund stofnfjárhafa í Sparisjóði Skagafjarðar. Þrátt fyrir þann tíma sem FME hefur tekið sér er úrskurðurinn óvandaður og órökstuddur,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir hópurinn að fjölda fyrirspurna og alvarlegra athugasemda er varða lögmæti samrunaferlisins, meðferðar stofnfjárhluta og lögmæti aðalfundar sjóðsins sé enn ósvarað.

Yfirlýsing hópsins er þannig:

„Fjármálaeftirlitið hefur nú birt úrskurð sinn varðandi yfirtöku Sparisjóðs Siglufjarðar á Sparisjóði Skagafjarðar um 7 mánuðum eftir umdeildan fund stofnfjárhafa í Sparisjóði Skagafjarðar. Þrátt fyrir þann tíma sem FME hefur tekið sér er úrskurðurinn óvandaður og órökstuddur. Þá er enn ósvarað fjölda fyrirspurna og alvarlegra athugasemda sem beint hefur verið til FME er varða lögmæti samrunaferlisins og meðferðar stofnfjárhluta og lögmæti aðalfundar sjóðsins. Í úrskurðinum segir hinsvegar “Fjármálaeftirlitinu bárust nokkrar ábendingar frá stofnfjáreigendum í Sparisjóði Skagafjarðar vegna fyrirhugaðs samruna og hefur öllum sem sendu inn ábendingar verið svarað skriflega” Þetta er einfaldlega rangt. Þá hefur Fjármálaeftirlitið í tvígang verið beðið um gögn er varða samrunann og í bæði skiptin hafnað því. Í ljósi þeirra alvarlegu athugasemda sem komið hafa fram og þess langa tíma sem liðinn er frá aðalfundi sparisjóðsins er óviðunandi að FME skuli ekki færa haldbær rök fyrir niðurstöðu sinni.

Aðalfundur Sparisjóðs Skagafjarðar þann 13. ágúst síðastliðinn samþykkti yfirtöku Sparisjóðs Siglufjarðar á sjóðnum. Atkvæðaseðlar um yfirtökuna voru 96. Af þeim voru 60 stofnfjáreigendur í Skagafirði sem höfnuðu yfirtökunni en 36 sem samþykktu. Úrslitum réði að samstæða Kaupfélags Skagfirðinga hafði selt mestan hluta stofnfjár síns út úr héraði, virka eignarhluti, til valinna aðila.

Það er ekki nýtt fyrir stofnfjárhöfum í Sparisjóði Skagafjarðar að Fjármálaeftirlitið bregðist hlutverki sínu. Skemmst er að minnast þess þegar almennir stofnfjárhafar í Skagafirði voru knúnir til að sækja rétt sinn til Hæstaréttar þegar sömu aðilar og nú áttu hlut að máli, með samþykki FME, komu stofnfjárhlutum sem voru í félagslegri eigu Kaupfélags Skagfirðinga í hendur fjölskyldna stjórnenda kaupfélagsfyrirtækjanna. Þeir gjörningar voru þá ómerktir fyrir Hæstarétti. Fyrir aðgerðaleysi Fjármálaeftirlitsins eru hagsmunir almennra stofnfjárhafa í Skagafirði enn á ný bornir fyrir borð.

Almennir stofnfjáreigendur í Skagafirði munu á næstu dögum enn á ný íhuga stöðu sína í ljósi niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins.

f.h. hóps almennra stofnfjáreigenda í Sparisjóði Skagafjarðar

Sigurður Guðmundsson

Sverrir Magnússon

Gísli Árnason

Gunnar Rögnvaldsson

Sigurður Þorsteinsson

Bjarni Jónsson“