Hluthafar breska tískuvörufyrirtækisins Burberry létu í sér heyra á ársfundi fyrirtækisins í dag enda eru þeir æfareiðir yfir svimandi launakjörum nýráðins forstjóra. Forstjórinn er með 10,3 milljónir punda í árslaun, um tvo milljarða króna, og árangurstengda kauprétti.

Forstjórinn heitir Christopher Bailey. Hann hóf störf hjá Burberry árið 2001 en hefur verið með kauprétti síðastliðin fjögur ár sem yfirhönnuður tískuhússins. Markaðsverðmæti kauprétta hans nema nú orðið um 27 milljónum punda eða í kringum 5,2 milljarða íslenskra króna. Bailey tók við af Angelu Ahrendts sem fór yfir til Apple í vor.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir sir John Peace, stjórnarformann Burberry, hafa varið kjör forstjórans með þeim rökum að gera verði vel við Bailey svo hann taki ekki tilboðum frá keppinautum.