Brynjólfur Björnsson, eigandi og rekstraraðili verslunarinnar Brynju á Laugarvegi sem m.a. selur verkfæri, segir inngrip bankanna á samkeppnismarkað verulega skaðleg fyrir samkeppni. "Það er mjög sérkennilegt að bankarnir, og þar með ríkið í sumum tilfellum, skuli beita sér með þessum hætti sem gert er," segir Brynjólfur.

Hann segir yfirtöku Landsbankans á Húsasmiðjunni vera dæmi um mikið inngrip á samkeppnismarkað sem hafi skaðleg áhrif á keppinauta. "Við [hjá Brynju innsk. blm.] berum okkur vel og það hefur gengið ágætlega hjá okkur, þrátt fyrir kreppu. En ég er samt ekki sáttur við að fyrirtækjum sé beinlínis haldið á lífi af bönkunum. Ég geri ráð fyrir Samkeppniseftirlitið þurfi að skoða þetta mál betur. Okkur gengur samt sem áður vel. Álagningin hjá stóru verslunum, eins og Húsasmiðjunni og Byko, hefur alltaf verið meiri en hjá okkur ef eitthvað er og við finnum fyrir því hjá okkar viðskiptavinum," segir Brynjólfur.

Vestia, eignarhaldsfélags Landsbankans, þar sem ríkið er langstærsti eigandi, tók á dögunum yfir rekstur Húsasmiðjunnar sem rekur 16 byggingarvöruverslanir víða um landið. Var það gert eftir greiningu fyrirtækjasviðs Landsbankans á því hvort fyrirtækið geti talist lífvænlegt eða ekki. Eldri hluthafar misstu sinn hlut í fyrirtækinu við endurskipulagninguna.

Þar sem rekstur Húsasmiðjunnar var talinn vera lífvænlegur var ákveðið að halda rekstri fyrirtækisins gangandi fremur en að láta fyrir fara í þrot.