„Það er nokkur munur í hugum flestra á að skrifa bréf til manns, eða setja nokkrar línur í tölvupóst til nokkurra manna,“ að mati Erlendar Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni. Embætti sérstaks saksóknara ákærði hann í byrjun ágúst fyrir innherjasvik þegar hann seldi hlutabréf eignarhaldsfélagsins Fjársjóðs í Glitni fyrir 10 milljónir króna vorið 2008.

Rannsókn á máli Erlendar hófst eftir kæru Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara og stóð rannsóknin yfir í rúm tvö og hálft ár áður en komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra í málinu. Eins og fram kom í umfjöllun VB.is um málið í gær vildi Fjármálaeftirlitið ekki sætta sig við málalokin og var þess krafist að ríkissaksóknari hlutaðist til í málinu og var ákært í því á ný. Á mánudag var svo ákæran dregin til baka.

Erlendur er ósáttur við umfjöllun fréttastofu RÚV af málinu. Hann skrifar á Facebook-síðu sína:

„Fréttastofa RÚV getur ekki sagt satt frá. Í niðurlagi meðfylgjandi fréttar, sem lesin var upp í fréttum kl. 11:00 segir: „Fréttastofa vill taka fram að frásögn hennar af ákæruliðnum er í fullu samræmi við ákæruna sem gefin var út af embætti sérstaks saksóknara 2. ágúst síðastliðinn". Þetta er rangt. Í ákæruskjalinu stóð „Í mars 2008, nánar tiltekið 14. mars, skrifaði ákærði í tölvupósti m.a. til Lárusar Welding, forstjóra Glitnis..." Í frétt RÚV 6. september sl. var hins vegar sagt: „Tveimur vikum áður en hann seldi bréfin skrifaði Erlendur bréf til Lárusar Welding, forstjóra Glitnis..." Það er nokkur munur í hugum flestra á að skrifa bréf til manns, eða setja nokkrar línur í tölvupóst til nokkurra manna [...].“