George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, er ekki sáttur við árangur sinn í ríkisfjármálum. Hann hefði viljað sjá skuldir hins opinbera lækka meira en raunin er. Osborne mælti fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á breska þinginu í gær. Niðurskurður einkennir frumvarpið ásamt umfangsmiklum skattalækkunum á einstaklinga og fyrirtæki ásamt aðgerðum sem eiga að gera ungu fólki auðveldara um vik að koma sér þaki yfir höfuðið á næstu tveimur árum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir miklum bata í bresku efnahagslífi á næstu árum. Á þessu ári er hins vegar gert ráð fyrir aðeins 0,6% hagvexti á þessu ári. Það er helmingi minna en áður var gert ráð fyrir.

Osborne var í viðtali í breska umræðuþættinum BBC Today í morgun. Þar sagði hann m.a. að þrátt fyrir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með það hversu lítið skuldir hins opinbera hafi lækkað þá hafi ríkisstjórnin gert mikið til að koma efnahagslífinu á réttan kjöl eftir fjárkreppuna. „Þetta gæti verið verra,“ hafði breska dagblaðið Guardian eftir honum á vef sínum í dag.  Þar er jafnframt haft eftir Osborne að stjórnvöld hafi gert mikið af mistökum í gegnum árin sem skýri skuldasöfnunina. Hann hafi hins vegar einsett sér að loka ekki augunum fyrir vandanum heldur bretta upp ermar og vinna á honum.