George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, segist trúa því að breska hagkerfið sé á „batavegi“ eins og hann orðar það en þó sé ýmislegt sem þurfi að gera til að tryggja frekar vöxt hagkerfisins.

Þetta sagði Osborne í viðtali í þætti Andrew Marr á BBC í gær.

„Þetta eru erfiðir tímar fyrir breska hagkerfið, þetta eru erfiðir tímar fyrir heimshagkerfið en hagkerfi okkar er á batavegi. Við þurfum að gera meira og við þurfum að gera hlutina hraðar,“ sagði Osborne í lauslegri þýðingu vb.is

Á vef breska blaðsins Telegraph kemur fram að markmið núverandi ríkisstjórnar um hallarlaus fjárlög hafi nú verið frestað aftur til ársins 2017 í stað 2015 eins og upphaflega var áætlað. Þá hafi breskar ríkið gefið út meira magn af skuldabréfum en áætlanir gerðu ráð fyrir og skuldasöfnun ríkisins væri í takt við það.

Hins vegar sýni nýjustu spár breska fjármálaráðuneytisins að hallinn í ár verði um 8,2% af vergri landsframleiðslu en hann var um 11,2% þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum.

Osborne sagði í fyrrnefndum sjónvarpsþætti að vandamál breska hagkerfisins væru margslungin og þau ættu sér langan aðdraganda.

„Ef það væri til einhver skyndilausn þá væri ég fyrsti maðurinn til að nota hana,“ sagði Osborne og bætti því við að slík lausn væri ekki til. Samdráttur breska hagkerfisins á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 0,5%.