George Osborne, fjármálaráðherra Bretland, er sagður hafa verið í sjokki eftir að hafa séð tölur um skattaskil ofurauðugra Breta. Skv. frétt breska blaðsins Telegraph mun skýrsla, sem unnin var af ráðuneytinu að ósk Osborne, sýna fram á að auðugir Bretar hafi nýtt sér allar mögulegar leiðir til þess að komast hjá skattgreiðslu eða greiða sem allra minnstu mögulegu skatta.

Þannig mun meðalskattgreiðsla umrædds hóps vera um 10% af tekjum hans, sem er um helmingi minna en hinn almenni Breti í prósentum talið þó um töluvert hærri upphæðir sé að ræða í Sterlingspundum.

Osborne segir í samtali við Telegraph að það hafi komið honum á óvart að sjá tölur sem sýna fram á það hvernig auðugir einstaklingar hafi komist hjá skattgreiðslum. Hann tók þó fram að þeir færu þó eftir skattalögum, en réttast væri að breyta þeim í kjölfarið.

„Ég er að tala um einstaklinga með hæstu tekjurnar,“ sagði Osborne. „Einstaklinga með tekjur upp á milljónir punda á ári. Almenna reglan er sú að allir einstaklingar greiði tekjuskatt og það á auðvitað einnig við um þá sem hafa hæstu tekjurnar.“

Sjá umfjöllun Telegraph