Í gær var klárað að sprengja næst síðustu sprenginguna í veghluta Bolungarvíkurganganna.  Rúnar Ágúst Jónsson staðarstjóri Ósafls segir að eftir sprenginguna hafi opnaðast á milli jarðgangahlutanna sem ekki stóð til að sprengja fyrr en laugardaginn 28. nóvember.

„Ástæðuna má rekja til þess að mjög veik setlög í efri hluta stafns ganganna gáfu eftir. Vegna öryggis starfsmanna var ákveðið að ljúka við að sprengja það sem eftir var,  styrkja loft og veggi svo ekki stafaði hætta á frekara hruni.

Framundan er frekari sprengivinna í síðasta útskoti ganganna ásamt bergstyrkingum svo hægt verði að bjóða gestum að skoða göngin á öruggan hátt þegar síðasta sprengihleðslan í verkinu verður sprengd  og þessum stóra áfanga fagnað þann 28. nóvember,” segir Rúnar.