Rúnar Ágúst Jónsson staðarstjóri Ósafls í Óshlíðargöngum, segir að Gröftur Óshlíðarganga gangi fremur brösuglega þessa dagana. Vegagerð beggja vegna ganganna er hinsvegar komin vel á veg og fyrsta steypan í nýja brú yfir Langá í Hnífsdal verður steypt í næstu viku.

„Hnífsdalsmegin erum við búnir að vera í miklum þykkum setlögum og vitum ekki alveg hvað er framundan.” Rúnar segir að þetta tefji borun og sprengingar verulega líkt og gerðist þegar farið var í gegnum setlög Bolungavíkurmegin. Setlögin nú séu þó mun þykkri. Frá Hnífsdal er nú búið að sprengja um 2.150 metra, en um 2.130 metra Bolungavíkurmegin. Í heild er því búið að sprengja um 4.280 metra, eða um 83,9% af 5,1 kílómetra heildarlengd ganganna.

„Það gengur þokkalega Bolungavíkurmegin. Þar erum við í basalti sem er samt svo laust í sér að það er erfitt að sprengja það. Á hvorugum staðnum erum við því á fullum afköstum í dag, en þetta mjatlast áfram.”

Segir Rúnar að þegar allt gangi vel þá ættu menn að vera að sprengja á milli 60 til 70 metra á viku frá hvorum enda, en þessa dagana er það innan við helmingur af því. Hann segir að vegna óvissu um ganginn framundan þá sé erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær slegið verður í gegn.

„Jarðfræðilegar aðstæður ráða því hvað við förum hratt yfir. Ég er búin að reikna nokkrar mismunandi dagsetningar, en við erum allavega að horfa á að við sláum í gegn í nóvember.”

Verið er að keyra út vegfyllingar í nýjan veg í Hnífsdal sem liggur með fjöruborðinu og kemur í sveig upp gamla veginn rétt utan við Hraðfrystihúsið í Hnífsdal við enda Bakkahyrnu. Þá er unnið við að klára uppslátt nýrrar brúar yfir mynni Langár undir Búðarhyrnu. Segir Rúnar að þar verði byrjað að steypa í næstu viku. Hann gerir þó ekki ráða fyrir að brúarsmíðinni ljúki fyrr en í september.

„Í það heila er þokkalegur gangur í framkvæmdum,” segir Rúnar Ágúst Jónsson.