Ósk Heiða Sveinsdóttir hefur verið ráðin í starf forstöðumanns þjónustu- og markaða hjá Póstinum en áður sinnti hún starfi markaðsstjóra. Með breytingunni kemur hún inn í teymi lykilstjórnenda hjá Póstinum. Ósk Heiða hefur mikla reynslu í sölu- og markaðsmálum og hefur meðal annars starfað sem markaðsstjóri Krónunnar, Trackwell og Íslandshótela. Þá hefur hún eins og áður sagði einnig verið markaðsstjóri Póstsins en þeirri stöðu tók hún við árið 2019. Ósk Heiða er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

„Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og hlakka til að takast á við verkefnin sem framundan eru. Á undanförnum misserum hafa verið tekin mikilvæg skref til þess að  standa nær viðskiptavinum þar sem áhersla er á bætta þjónustu, fleiri afhendingarleiðir, stafræna þróun og að eiga þétt samtal við markaðinn. Náin samvinna milli þjónustu, sölu og markaðsmála skiptir öllu máli til þess að mögulegt sé að gera betur og grípa tækifærin sem myndast á markaði. Við höldum ótrauð áfram," segir Ósk Heiða Sveinsdóttir í tilkynningunni.

„Það er frábært að fá Ósk Heiðu inn í lykilstjórnendateymið okkar. Undanfarin ár hefur hún stýrt markaðsstarfi félagsins gríðarlega vel á sinn einstaka hátt. Það er mikill kraftur sem kemur með henni og hún er eins og ferskur blær hvar sem hún kemur, það er mjög mikilvægt að vera með kraftmikla manneskju yfir sölu, þjónustu- og markaðsmálum og ekki síður mikilvægt að fá svona kraftmikinn einstakling í teymi lykilstjórnenda. Ég hlakka til að vinna enn meira með Ósk og veit að hún á eftir að gera mjög vel í nýju hlutverki," segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, í tilkynningunni.