Má Guðmundssyni seðlabankastjóra varð að ósk sinni í dag þegar fundur í bankanum varð í styttri kantinum. Fundir þar sem Már og annað hvort Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri eða Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, gera grein fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans með Má eru alla jafna um klukkustund. Fundirnir byrja jafnan klukkan 10:30.

Sú breyting varð í dag að fundinum var flýtt um hálftíma. Már sagði strax við upphaf fundar að hann óskaði eftir því að fundurinn verði í styttri kantinum enda þurfi hann að fara á fund seðlabankastjóra Norðurlandanna.

Aðeins einni spurningu var varpað fram á fundinum. Hún var reyndar í nokkrum liðum. Fundurinn varði því aðeins í stundarfjórðung og þakkaði Már þeim sem mættu á fundinn tillitsemina.