Fyrir utan Nasdaq vísitöluna sem sýndi 0,7% hækkun varð almenn lækkun á mörkuðum vestanhafs í dag.

Markaðir sýndu rauðar tölur strax í morgun og leiðin lá niður á við þangað til að markaðir tóku við sér  undir lok dags. Nasdaq hækkaði sem fyrr segir um 0,07%. Dow Jones lækkaði um 0,37% og S&P 500 lækkaði um 0,34% og hefur ekki verið lægri frá því í ágúst 2003.

Það voru helst fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir í dag. Að mati Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst orða Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna sem urðu til þess. Hann hvatti í dag lánasjóði og önnur fjármálafyrirtæki í lánarekstri til að „fyrirgefa“ skuldunautum sínum og afskrifa skuldir þeirra sem illa hafa komið úr undirmálalánarekstri síðustu misseri.

„Það hræðir fólk þegar seðlabankastjóri er enn að tala um veikleika í hagkerfinu og lélega skuldarstöðu,“ hafði Bloomberg eftir viðmælenda sínum.

Citigroup lækkaði í dag um 4,21% og hefur gengi fyrirtækisins ekki verið lægra í níu ár.

Þá greindi Merrill Lynch bankinn frá því að bankinn þurfi líkast til að afskrifa um 18 milljarða bandaríkjadali til viðbótar við að sem þegar hefur verið afskrifað. Þá er einnig greint frá því að hagnaður fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum verði allt að 20% minni á fyrsta og öðrum ársfjórðungi en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Það sem hins vegar færði markaði örlítið upp á við undir lok dags var orðrómur um björgun lánasjóðsins Ambac en ekki hefur fengist staðfest að af því verði.