Nýliðar hjá fjárfestingabankanum Goldman Sachs hafa kvartað undan miklu vinnuálagi og óska eftir því að bankinn setji 80 klukkustunda þak á vinnuvikuna. BBC segir frá.

Könnun meðal þrettán starfsmanna bankans gaf til kynna að þátttakendurnir vinna að meðaltali 95 klukkustundir á viku og ná að jafnaði fimm klukkustunda svefni. Þátttakendurnir vöruðu við því að þeir væru líklegir til að hætta á næstu sex mánuðum ef starfsaðstæður breytast ekki.

Þá hafi persónuleg sambönd liðið fyrir vinnuna ásamt líkamlegri og andlegri heilsu þeirra. Þeir gáfu einkunnir á heilsunni fyrir og eftir að þeir hófu störf hjá bankanum. Þátttakendurnir gáfu andlegri heilsu sinni einkunnina 8,8 af 10 áður en þeir hófu störf hjá bankanum en einkunnina 2,8 eftir að þeir byrjuðu hjá bankanum. Einkunnin á líkamlegri heilsu fór sömuleiðis úr 9 í 2,3.

„Svefnleysið, meðferð æðstu stjórnenda, andlega og líkamlega streitan. Ég hef verið í fósturráðstöfun (e. foster care) og þetta er ábyggilega verra,“ er haft eftir einum þátttakandanum. „Þetta er meira en stritvinna, þetta er ómannúðlegt/misnotkun,“ á annar þátttakandi að hafa sagt.

Könnunin var framkvæmd af hópi fyrsta árs greinenda hjá fjárfestingabönkum. Þeir mæltu með að vinnuvikan yrði að hámarki 80 klukkustundir ásamt því að starfsmenn fengju frí á laugardögum og eftir klukkan 21 á föstudögum.

Niðurstöður könnunarinnar voru bornar undir stjórn Goldman Sachs í febúar. Bankinn segist hafa tekið skref til að ávarpa kulnun meðal þessara starfsmanna og annara starfsmannateyma.