Norðurál hefur óskað eftir því við orkusala sinn að trúnaði verði aflétt af langtíma samningum milli fyrirtækjanna eins fljótt og kostur er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Í dag birti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið niðurstöður úttektar þýska fyrirtækisins Fraunhofer á samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju. Meginniðurstaða úttektarinnar var sú að raforkukostnaður stóriðjunnar skerti ekki samkeppnishæfni greinarinnar gagnvart samanburðarríkjum.

„Norðurál telur að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju sé um margt góð og fagnar því að iðnaðarráðherra skuli hafa tekið það skref að láta óháðan aðila meta samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, með tilliti til raforkuverðs. Stóriðja er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og er háð samkeppnishæfu raforkuverði. Hvað varðar niðurstöðu Fraunhofer skýrslunnar þá staðfestir hún það sem Norðurál hefur bent á, að meðalverð raforku hefur verið samkeppnishæft. Skýrslan staðfestir einnig að það raforkuverð sem nú stendur til boða á Íslandi er ekki samkeppnishæft við það sem stendur til boða í Noregi og Kanada,“ segir í tilkynningu Norðuráls.

Við gerð skýrslunnar fékk Fraunhofer aðgang að raforkusamningum stórnotenda við orkuframleiðendur en vandasamt var að birta niðurstöðurnar á þann veg að trúnaður lenti ekki milli skips og bryggju. Í yfirlýsingu frá Landsvirkjun segir að vilji fyrirtækisins hafi staðið til þess að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar.

„Þessi niðurstaða staðfestir það sem við hjá Landsvirkjun höfum talið okkur vita, að við bjóðum grænu orkuna okkar á samkeppnishæfu verði. Það er gott að fá það staðfest af sérfróðum, óháðum aðila,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í yfirlýsingu frá félaginu.