Stjórn færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum vinnur að því að skrá hlutabréf félagsins í kauphöllina í Osló í Noregi fyrir áramót. Ráðist verður í hlutabréfaútboð þar í landi í aðdraganda skráningar. Hlutabréf olíuleitarfélagsins eru skráð í Kauphöllina hér og í Kaupmannahöfn. Stjórn félagsins hefur þegar óskað eftir afskráningu hér og verða bréfin eftirleiðis skráði í Danmörku og Noregi.

Hlutabréf Atlantic Petroleum voru skráð í Kauphöll Ísland um mitt ár 2005 og var það í fyrsta sinn sem erlent félag var skráð á markað hér á landi. Hér má lesa um skráninguna á sínum tíma eins og VB.is fjallaði um hana þá.

Fram kemur í tilkynningu frá Atlantic Petroleum að með skráningu hlutabréfa félagsins á norskan hlutabréfamarkað sé stefnt að því að fjármagna frekari olíuleit og olíuvinnslu. Stefnt er að því að selja hlutabréf fyrir á bilinu 165 til 225 milljónir norskra króna, jafnvirði 3,3 til 4,4 milljarða íslenskra króna.

Atlantic Petroleum er með 40 leyfi til olíu- og gasleitar við Færeyjar, Noreg, Bretland, Holland og Írland. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Þórshöfn í Færeyjum.