Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur óskað eftir athugasemdum og sjónarmiðum hagaðila vegna kaupa Marels á Völku, sem tilkynnt var um fyrir viku. Rannsókn SKE beinist að því hvort samruni fyrirtækjanna hindri samkeppni, t.d. ef markaðsráðandi staða verði til eða styrkist. Er þess óskað að umsagnir berist eftirlitinu innan tveggja vikna eða í síðasta lagi 26. júlí.

Í samrunaskrá segja félögin að vörumarkaðir sínir séu alþjóðlegir og því telji þau að öll rök falli með því að afmarka markaðina að minnsta kosti við landsvæðið Evrópu eða EES-svæðið. Félögin telja að hin fyrirhuguðu viðskipti komi ekki til með að vekja upp álitaefni frá sjónarhóli samkeppnisréttar þar sem samruninn mun hvorki skapa markaðsráðandi stöðu hins sameinaða félags né styrkja slíka stöðu. Það er því mat samrunaaðila að engin rök mæli með því að lagaskilyrði séu fyrir íhlutun í samrunann.

Samruninn felur í sér að Marel kaupi 91,6% útgefinna hluta í Völku. Í tilkynningu Marels fyrir viku kom fram að félagið stefni á að kaupa allt hlutafé Völku og verður eftirstandandi hluthöfum boðið að selja sinn hlut á sömu kjörum og aðrir eigendur Völku fengu.

Kaupverðið verður greitt 50% með reiðufé og 50% í hlutabréfum Marel, fyrir utan minni hluthafa sem býðst greiðsla með 100% reiðufé. Seljendur sem fá hlutabréf í Marel skuldbinda sig að eiga þau í 18 mánuði frá kaupunum. Marel hefur ekki gefið út kaupverðið á Völku og er það afmáð í samrunaskránni.

Marel áætlar að gengið verði frá kaupunum síðar á árinu, háð því að samþykki fáist frá SKE. Helgi Hjálmarsson, stofnandi og forstjóri Völku mun taka við stöðu forstöðumanns vinnslulausna og halda áfram að vinna að nýsköpun hjá Marel.

Valka, sem stofnað var af Helga árið 2003, er hátæknifyrirtæki sem framleiðir fiskvinnslulausnir fyrir hvítfisk og lax. Vöruframboð félagsins inniheldur meðal annars vatnsskurðarvélar, snyrti- og flokkunarlínur. Hjá félaginu starfa samtals 105 starfsmenn á Íslandi og í Noregi. Velta Völku var 2,6 milljarðar króna á síðasta ári, samanborið við 3,2 milljarða árið 2019, samkvæmt samrunaskránni.