*

sunnudagur, 8. desember 2019
Innlent 9. apríl 2019 13:04

Óska eftir endurskoðun yfirdeildar

Íslenska ríkið mun skjóta dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu til yfirdeildar dómstólsins

Ritstjórn
Þordís Kolbrún R. Gylfadóttir, dóms-, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska ríkið mun skjóta dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Landsréttarmálinu til yfirdeildar dómstólsins. Ákvörðun þessa efnis var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Þetta kemur fram yfirlýsingu á vef Stjórnarráðsins.

Þann 12. mars síðastliðinn komst meirihluti MDE að þeirri niðurstöðu að við skipan Landsréttar hefði landslögum ekki verið fylgt og það hefði falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Sem kunnugt er hróflaði þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, við lista hæfnisnefndar um mat á hæfi dómaraefna við Landsrétt. Færði ráðherrann fjóra dómara ofar á listann en uppfyllti við gjörninginn ekki rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.

Málið í Strassbourg varðaði lögmæti skipunar eins dómarans af þessum fjórum. Eftir að dómur MDE lá fyrir hafa aðeins ellefu dómarar Landsréttar af fimmtán tekið sæti í dómum og óvissa verið uppi um hvaða varanlegu afleiðingar dómurinn hefur.

„Við höfum síðustu vikur skoðað mismunandi fleti þessa mikilvæga máls. Eftir þá skoðun tel ég rétt að óska endurskoðunar hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins. Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikilvæga hagsmuni málið snertir hér á landi. Ég mun halda áfram að skoða aðra fleti málsins en á þessu stigi verða ekki teknar frekari ákvarðanir,” segir Þordís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra.

Í yfirlýsingu Stjórnarráðsins segir að dómurinn hafi ekki aðeins áhrif hér á landi heldur um alla Evrópu. Það hafi verið mat ráðuneytisins að fara þessa leið að loknu samráði við ríkislögmann og dr. Thomas Horn, málflutningsmann og sérfræðing í mannréttindum og réttarfari. Dómurinn í mars síðastliðnum veki upp spurningar um túlkun og framkvæmd MSE.

Málskot til yfirdeildarinnar er ekki sjálfkrafa heldur þarf dómstóllinn að samþykkja beiðnina. Það mun líklega liggja fyrir innan fárra mánaða hvort leyfi fæst eður ei. Fáist það mun íslenska ríkið óska eftir flýtimeðferð í ljósi þeirra hagmuna sem undir liggja en flýtimeðferð fékkst í upphafi.