Enginn kröfuhafi var mótfallinn því að óska eftir framlengingu á greiðslustöðvun Kaupþing á kröfuhafafundinum í gær. Ólafur Garðarsson, formaður slitastjórnar, segir að beiðni þess efnis verði lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn þegar núverandi heimild renni út. Samkvæmt lögum getur bankinn ekki verið í greiðslustöðvun lengur en til 24. nóvember 2010. Bankinn mun við lok greiðslustöðvunartímabilsins fara sjálfkrafa í slitameðferð.

Í gögnum sem lögð voru fram á kröfuhafafundinum kemur fram að  aðstoðarmaður í greiðslustöðvun telur skynsamlegt að nota allar leiðir til að vernda hagsmuni kröfuhafa. Til öryggis, leggur því bankinn til að óskað verði eftir áframhaldandi greiðslustöðvun til lokadags mögulegs greiðslustöðvunartímabils þrátt fyrir að slitameðferð sé í sjálfu sér svipað ferli og bankinn er nú þegar í.

Greiðslustöðvun veitir bankanum lagavernd

Greiðslustöðvun veitir bankanum viðeigandi lagavernd, t.d. vegna frystingu eigna og tryggir að bankinn haldi bankaleyfi og geti rekið nauðsynlega starfsemi til að styðja við eignir sínar. Margar þeirra reglna sem gilda um greiðslustöðvun gilda áfram við slitameðferð. Skilanefnd starfar t.d. áfram við slitameðferð og skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir bankans. Það getur falið í sér að bíða eftir gjalddögum á útistandandi kröfum bankans fremur en að koma þeim í verð þegar í stað.