Borgstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur sent bréf til Innanríkisráðuneytisins þar sem óskað er formlega eftir mati ráðuneytisins á lögmæti þess hvernig ársreikningur Reykjavíkur var settur fram. Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokknum segir að reikningurinn sé settur upp án skýrs samanburðar við upphaflega fjárhagsáætlun borgarinnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að vafi leiki á því hvort slík framsetning standist sveitarstjórnarlög, sem skýrt kveði á um það að ársreikningur skuli settur fram með þeim hætti að endanleg niðurstaða fjárhagsáætlunar sé borin saman við upphaflega áætlun.

Í tilkynningunni er haft eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort framsetning ársreikningsins standist lög eða ekki. Hún segir að ársreikningar borgarinnar hafi ekki verið settir fram með þessum hætti í langan tíma og að með ólíkindum sé að meirihlutinn skuli standa að slíkri afturför í upplýsingagjöf, þrátt fyrir ný og skýrari lög um ársreikninga frá síðasta hausti. Slík framsetning sé ekki aðeins villandi og vond þegar kemur að því að skoða stöðu og þróun fjármála sveitafélaga, heldur brjóti hún beinlínis gegn því markmiði laganna að ársreikningar séu aðgengilegir og auðvelt sé að bera saman upphaflegar áætlanir og endanlega niðurstöðu.