Aðfaranótt 21. janúar 2021 fór stofnlögn vatns í sundur með þeim afleiðingum að vatn flæddi inn í byggingar Háskóla Íslands, en Veitur höfðu staðið fyrir framkvæmdum við Suðurgötu sem fólu m.a. í sér endurnýjun á lögnum. Síðan þá hafa fjölmargar kennslustofur Háskólans verið ónothæfar.

HÍ fékk dómkvadda matsmenn til að meta umfang tjónsins og skiluðu þeir matsskýrslu til tjónþola í janúar 2022. Þann 4. mars 2022 lagði Háskólinn inn beiðni hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem óskað var eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að framkvæma yfirmat á tjóninu. Því liggur áætlað umfang tjónsins ekki fyrir að svo stöddu.

Nú, rúmlega ári síðar, er verið að fara í útboð vegna framkvæmda á húsinu, en Viðskiptablaðið fékk þetta staðfest í samtali við HÍ. Því hillir undir að framkvæmdir geti hafist við endurbætur á húsinu.