Ríkiskaup hafa auglýst eftir tilboðum í byggingu og fullnaðarfrágang sendiherrabústaðar í Berlín í Þýskalandi. Það er Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. utanríkisráðuneytis sem sér um verkefnið en hönnun hússins var boðin út fyrir tveimur árum. Húsið verður alls 675 m2 að stærð en um er að ræða þrískipta byggingu á tveimur hæðum með kjallara að hluta auk bílskúrs. Byggingin skiptist í íbúð sendiherra, móttöku- og gestarými og tengibyggingu.

Húsið er steypt, einangrað að utan með blágrýti, eik og báruformuðu zinki. Einnig skal ganga frá lóð fyrir framan húsið. Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 22. október 2005. Útboðsgögn, sem eru á þýsku, verða til sýnis og sölu hjá Ríkiskaupum og verða þau einungis afhent á geisladiski. Tilboðum skal skilað til Ríkiskaupa eigi síðar en föstudaginn 26 nóvember n.k. þar sem þau verða opnuð 29. nóvember 2004 kl.14.00 að viðstöddum þeim bjóðendum, sem þess óska.