Landsbankinn kallar nú eftir skýrum svörum frá Borgun um það hvort stjórnendur félagsins hafi haft upplýsingar um hvort valréttur milli Visa Inc. og Visa Europe yrði nýttur. Að sögn Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, kom það stjórnendum bankans á óvart að hann yrði nýttur.

„Miðað við það sem við heyrum í fjölmiðlum virðist sem erlend umsvif félagsins hafi orðið margfalt meiri en gert var ráð fyrir í þeim áætlunum sem við fengum að sjá hjá fyrirtækinu þegar við lögðum mat á það hvert verðgildi hlutarins væri.“ Þetta segir Steinþór Pálsson í samtali við Morgunblaðið

Hann segir að bankinn hafi verið í þröngri samningsstöðu þegar salan átti sér stað á sínum tíma.

„Við vorum í raun í þröngri stöðu gagnvart mögulegum kaupendum. Stjórnendur fyrirtækisins nálguðust okkur og vildu kaupa. Við erum fjármálafyrirtæki og á okkur eru ríkar skyldur þegar kemur að sölu hlutabréfa. Við höfðum mjög takmarkaðan aðgang að upplýsingum. Við óttuðumst að ef við myndum selja þriðja aðila fyrirtækið og byggja það á upplýsingum frá stjórnendum sem einnig vildu kaupa, þá gætum við bakað okkur skaðabótaábyrgð ef hlutirnir hefðu farið á verri veg. Við reyndum að selja Íslandsbanka hlutinn í Borgun en fyrir átti Íslandsbanki meirihluta í fyrirtækinu. Þeir vildu ekki kaupa,“ segir Steinþór.