*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 10. mars 2020 10:54

Óskabein selur fyrir 188 milljónir

Félagið Óskabein, sem m.a. er í eigu stjórnarmanns í VÍS, selur 20 milljónir af tæplega 50 milljón hlutum í félaginu.

Ritstjórn
Skrifstofur Vátryggingafélag Íslands eru í Ármúla. Gestur Breiðfjörð Gestsson, stjórnarmaður í VÍS er á mynd að neðan.
Haraldur Guðjónsson

Gestur Breiðfjörð Gestsson stjórnarmaður í VÍS, ásamt fleiri hluthöfum, hafa selt 20 milljón hluti í VÍS, á genginu 9,4 krónur, fyrir 188 milljónir króna í gegnum félagið Óskabein.

Samkvæmt hluthafalista VÍS er Óskabein 13. stærsti eigandinn í Vátryggingafélaginu með 2,21% hlut eða ríflega 48,5 milljón hluti. Með sölunni nú ætti félagið að detta niður fyrir LSR sem er síðast á listanum eins og hann stendur nú, óuppfærður með rétt ríflega 29 milljón hluti, eða 1,49%.

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun desember að Óskabein hefði keypt þrjár milljónir hluta í félaginu á genginu 11,4 krónur, fyrir samtals 34,2 milljónir króna. Óskabein er auk Gests í eigu Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar, sem báðir eru meðal eigenda Kea hótelanna, auk Engilberts Hafsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Wow air.