Í næstu viku verður lagt frumvarp af efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem farið er fram á að framlengja gjaldeyrishöft til ársins 2015. Ef aðstæður leyfa verða þau afnumin fyrr. Markmið með tímamörkum er að gera trúverðugan tímaramma um ferlið. Núverandi gjaldeyrishöft renna út í ágúst, samkvæmt lögum.

Þetta kom fram í máli Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, á blaðamannafundi í dag. Þar er kynnt áætlun um afnám hafta.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun áætlunina. Markmiðið skýrslunnar er að birta heildarmynd á áætlun um afnám hafta. Áæltunin skiptist í höfuðdráttum í tvo áfanga. Í þeim fyrri er gert ráð fyrir að losa um aflandskrónur, þ.e. krónueign í eigu erlendra aðila. Aðaláhersla verður lögð á að beina krónueign í atvinnusköpun hér á landi.

Árni Páll sagði að afnám feli í sér breytingar á fjármögnun ríkisins. Gert er ráð fyrir sérstakri útgáfu ríkisbréfa samhliða afnámi, sem verður í skrefum.

Í annan stað er verið að losa um aflandskrónur og finna þeim farveg í íslensku atvinnulífi og greiða þar með fyrir nauðsynlegri fjárfestingu, sagði Árni Páll. Hann sagði verulega óvissa um hversu langan tíma ferlið muni taka. Það verði tekin mörg lítil skref í því að losa um aflandskrónurnar og munu stjórnvöld taka þann tíma sem þarf.