Óskað er eftir umsögnum um þrjár tillögur sem liggja fyrir utanríkismálanefnd um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Auglýsing um þetta birtist á vef Alþingis í dag.

Þær þrjár tillögur sem liggja frammi eru tillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, tillaga VG og tillaga Pírata. Eins og kunnugt er gengur tillaga Gunnars Braga út á það að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka, tillaga Pírata gengur út á það að greidd verði atkvæði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, tillaga VG gengur hins vegar út á að hlé verði gert á aðildarviðræðum fram til loka kjörtímabilsins.

Í tilkynningu segir að umsagnir og erindi þurfa að berast nefndinni á rafrænu formi fyrir 8. apríl nk.