Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hyggst leggja fram tillögu um þingrof við forseta Íslands og og verður fundur með Guðna Th. Jóhannessyni þess efnis á morgun á Bessastöðum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá vilja Píratar að þrjú mál verði afgreidd fyrir kosningar en ef þingrof verður samþykkt þurfa kosningar að eiga sér stað innan 45 daga. Ef ekki verður þingrof getur þingið starfað fram að kosningum, en meirihluti er fyrir því að þing verði rofið strax að því er RÚV greinir frá.

Forsetinn hefur rætt við forystumenn stjórnmálaflokkana í síma í dag um mögulegan kjördag og er nú helst litið til þess að kosið verði 28. október frekar en 4. nóvember sem var dagsetningin sem Bjarni Benediktsson hafði lagt upp með eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær .