Fjármálaráðuneytinu er ekki kunnugt um einstök viðskipti bankanna við peningamarkaðssjóðina og hefur ekki óskað eftir upplýsingum um þau.

„Sú ákvörðun bankanna að kaupa verðbréf af peningamarkaðssjóðum var gerð á ábyrgð bankanna og viðkomandi bankastjórna og var gerð á viðskiptalegum forsendum án afskipta ráðherra eða ráðuneytis."

Þetta kemur fram í skriflegu svari fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Ákvörðunin á hendi hvers banka fyrir sig

Álfheiður óskaði nýverið eftir skriflegu svari frá fjármálaráðherra um fjármögnun á kaupum á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings.

Í svarinu segir að fjármögnunin hafi verið gerð í gegnum hvern banka fyrir sig, eins og það er orðað, án atbeina eða afskipta ríkissjóðs, fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytis.

Ákvörðunin um viðskiptin hafi sömuleiðis verið á hendi hvers banka fyrir sig og eftir atvikum bankaráða eða bankastjórna þeirra.

Þingmaðurinn spyr hver aðkoma ráðherra og ráðuneytis hafi verið í „þessari atburðarás" og er því svarað til að aðkoma ráðherra og ráðuneytis hafi verið engin.

Ráðherra sé sömuleiðis ekki kunnugt um að nein lög eða neinar reglur hafi verið brotnar í þessu sambandi.

Staðan ekki eins slæm og talið var

Í svarinu segir einnig að viðskiptaráðherra hafi á sínum tíma kynnt fyrir fjármálaráðherra áætlaða stöðu einstakra sjóða sem var byggð á áætlun frá Fjármálaeftirlitinu.

„Fljótt kom í ljós að staðan var ekki eins slæm og þar var gert ráð fyrir," segir í svarinu.

Þá er tekið fram, vegna spurninga þingmannsins, að fjármálaráðherra hafi ekki gert nein minnisblöð vegna málsins, né heldur voru honum afhent önnur minnisblöð. Þá hafi hann ekki gefið nein fyrirmæli um kaup nýju bankanna á bréfum peningamarkaðssjóðanna.

Spurningarnar og svörin í heild má finna hér.