Sá skammtur af iPad spjaldtölvum, sem Morgunblaðið hafði tryggt sér er að verða búinn, en slík hafa viðbrögðin verið við tilboði Morgunblaðsins, sem kynnt var í dag. Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, segir að verið sé að vinna í því að fá fleiri eintök. Morgunblaðið býður nú háskólanemum að verða áskrifandi að Morgunblaðinu með kaupum á iPad spjaldtölvu, en nýtt Morgunblaðssmáforrit (e. app) var kynnt í dag.

„Þegar og ef við fáum þessar viðbótartölvur verða þær líka boðnar háskólanemum. Mér finnst hins vegar mjög líklegt að þegar fram í sækir verði almenningi boðið að verða áskrifendur með þessum hætti, þótt verðlagningin verði önnur.“ Óskar vildi ekki gefa upp hvað margar iPad tölvur hafa selst í dag, en sagði þó að um töluvert magn væri að ræða.