Mike Ashley, eigandi breska úrvalsdeildarliðsins Newcastle og íþróttavöruverslananna Sports Direct, á fréttavefinn Sportsdirectnews.com , sem fjölmiðlamaðurinn Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur unnið við að koma á laggirnar upp á síðkastið. Vefurinn er kominn í loftið.

Mike Ashley.
Mike Ashley.

Það var Jón Ásgeir Jóhannesson sem fór þess á leit við Óskar að hann kæmi fréttavefnum á koppinn. Óskar er reynslubolti í fréttamennsku, er fyrrverandi fréttastjóri á Fréttatímanum, fréttastofu Stöðvar 2, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs og Vísi. Þá er Óskar enginn aukvisi í fótbolta en hann spilaði með meistaraflokki KR og var atvinnumaður í Noregi.

Óskar vildi í sumar ekki segja vb.is hver væri á bak við íþróttavefinn en benti á að tíminn myndi leiða það í ljós. Fram kemur í helgarútgáfu DV, að það er fyrirtækið Mym-e Limited sem heldur utan um Sportsdirectnews. Í DV segir sömuleiðis að auk Jóns Ásgeirs og Óskars komi Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, að íþróttafréttavefnum.

Þetta er fjarri því eina tenging Mike Ashley við Ísland. Sigurður Pálmi, sonur Ingibjargar og fóstursonur Jóns Ásgeirs opnaði íþróttavöruverslun undir merkjum Sports Direct í Smáratorgi í Kópavogi í sumar.