*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 31. maí 2013 12:25

Óskar hjá Árvakri: Smá uppátæki sem vekur athygli

Morgunblaðið kom út í óvenju stóru broti í dag. N1 keypti nær allt auglýsingapláss í blaðinu.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

„Þetta er smá uppátæki hjá okkur sem vekur eftirtekt þá sjaldan að við gerum þetta. En Morgunblaðið er aftur orðið stærsta dagblaðið á Íslandi,“ segir Óskar Magnússon, útgefandi Árvakurs. Þeir sem flett hafa Morgunblaðinu í dag hafa vafalítið tekið eftir því að brotið er tvöfalt stærra en venjulega auk þess sem olíuverslun N1 hefur keypt nær allar auglýsingar í blaðinu ef frá eru taldar smáauglýsingar og auglýsing frá Moggaklúbbnum. Blaðinu er jafnframt dreift ókeypis í öll hús en upplagið í dag telur 91 þúsund eintök. 

Ekki er einsdæmi að stórfyrirtæki kaupi upp nær allt auglýsingaplássið í Morgunblaðinu en Icelandair og Síminn gerðu það fyrir nokkrum árum. Þegar Icelandair keyptu auglýsingar í blaðinu var aukakápa með auglýsingu utan á blaðinu.

Óskar segir fátíðara að broti Morgunblaðsins er breytt. Hann rifjar upp að blaðið hafi síðast komið út í sama broti á árunum 1919 til 1920 að fyrirmynd erlendra stórblaða. Eigendaskipti urðu um svipað leyti á blaðinu og töldu nýir eigendur brotið ekki henta Morgunblaðinu. Fjallað er um stóra brotið í leiðara Morgunblaðsins. Þar segir m.a. að lesendur blaðsins, sem margir eru íhaldssamir þegar kemur að efni og útliti blaðsins síns, þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að stækkunin sé varanleg. Blaðið muni aðeins koma út í þessu formi  í dag.

„Segja má að þessi óvenjulega útgáfa sé til marks um að þó að blaðið sé búið að slíta barnsskónum og sé á margan hátt jafn íhaldssamt og lesendur þess, er það engu að síður nýjungagjarnt og hefur gaman af að breyta til,“ segir í leiðaranum.