„Ég átti fjögur frábær ár hjá Domino's. En ég skulda þeim ekki krónu. Þvert á móti skuldar fyrirtækið mér laun og fleira til,“ segir Óskar Axel Óskarsson, fyrrverandi svæðisstjóri hjá Domino's. Honum var fyrirvaralítið sagt upp störfum í fyrrahaust eftir að hann gagnrýndi stefnu nýrra eigenda fyrirtækisins. Hann telur sig eiga inni greiðslu hjá Domino's á uppsagnarfresti, hluta af launum í sumarleyfi og miskabætur vegna uppsagnarinnar og hefur krafið fyrirtækið um 6 til 7 milljónir króna. Domino's hefur að sama skapi stefnt honum vegna úttekta á pizzum upp á 969 þúsund krónur.

Óskar var í kringum síðustu aldamót kenndur við skófyrirtækið X-18 sem hann stofnaði og hannaði tískuskó hér á landi en framleiddi í Kína og seldi víða um heim. Þegar best lét árið 2000 voru skór fyrirtækisins seldir í 65 löndum í öllum heimsmálum, m.a. í Bretlandi, Danmörku og Hong Kong. Óskar yfirgaf skófyrirtækið árið 2002 eftir að djúpstæður ágreiningur kom upp á milli hans og stjórnarformanns fyrirtækisins þar sem deilt var um rekstur og framtíðarstefnu þess.

Óskar var svæðisstjóri hjá Domino's og bar m.a. ábyrgð á því að bæta rekstur nokkurra veitingastaða fyrirtækisins. Hann vann samtímis að því í frítíma sínum ásamt syni sínum að aðstoða ungt fólk við það að koma sér á framfæri undir merkjum Menningarsjóðs Unga fólksins, skammstafað Mammúng, sem heldur utan um myndlist þess, ljóðagerð og tónlist. Félagsskapurinn er vímuefnalaus og á boðskapurinn að vera jákvæður. Félagsskapurinn hefur um nokkurt skeið selt Domino's-pizzur í söluvagni víða um land á tyllidögum, svo sem í höfuðborginni á 17. júní og írskum dögum á Akranesi. Fyrri stjórn Domino's segir hann hafa samþykkt að lána félagsskapnum fyrir pizzunum en fengið þær greiddar til baka eftir að sölu lauk.

Hafði ekki trú á stefnu Domino's

Eigendaskipti urðu á Domino's í fyrrasumar þegar Birgir Þór Bieltvedt og meðfjárfestar hans keyptu fyrirtækið. Þeir fengu eignina í hendur í september í fyrra og boðuðu af því tilefni til fundar með starfsfólki þar sem framtíðarplönin voru kynnt. Óskar hafði ekki trú á stefnunni miðað við þær forsendur sem kynntar voru og sagði sjálfur óráð að hafa slíkan mann innanborðs nema þeir sannfærðu hann um annað.

„Mér fannst þetta bara ekki ganga upp hjá þeim,“ segir Óskar. Í kjölfar fundarins var honum sagt upp.

Í febrúar var Óskari svo birt stefna þar sem hann var krafinn um 969 þúsund krónur vegna úttekta á pizzum. Þetta segir hann ekki rétt. Hann hafi ekki keypt pizzur fyrir eina milljón krónur. Hið rétta sé að um sé að ræða reikning fyrir pizzasölu Mammúng, sem fyrir einhverjar sakir hafi verið færður á hans nafn.

Óskar vandar nýjum eigendum Dominos ekki kveðjurnar, segir þá m.a. hafa einhliða rift samningum við Mammúng eftir að honum sjálfum var sagt upp. Það hafi verið þvert á þann samning sem Mammúng gerði við fyrri stjórn Domino's.

Nú hefur Óskar bæði stefnt Pizza-pizza, eigendum Domino's, og þeir honum. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur undir lok mánaðar.