Það vakti mikla athygli í þar síðustu viku þegar Óskar Magnússon, sem talsmaður Kerfélagsins, meinaði íslenskum stjórnvöldum að sýna Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, Kerið í Grímsnesi en landið er í eigu Kerfélagsins.

Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Aðspurður um þetta mál segir Óskar málið eiga sér lengri aðdraganda.

„Árið 2008 tilkynntum við með formlegum hætti með bréfi til ferðamálastjóra að við hygðumst banna skipulagðar hópferðir í Kerið. Þá var ástandið á svæðinu orðið svo slæmt að það þurfti að takmarka umferð um svæðið. Allan tímann hefur almenningi þó verið heimilt að skoða Kerið. Það var bara tekið fyrir skipulagðar rútu- og hópferðir,“ segir Óskar.

„Þetta var gert til að hlífa náttúrunni, það var engin önnur ástæða að baki. Það sama ár áttum við fund og gengum um svæðið með ferðamálastjóra og öðrum embættismönnum, t.d. frá Umhverfisstofnun, og það var enginn ágreiningur um það að svæðið væri í miklu ólagi. Þau vildu samt fá lengri tíma, báðu okkur um að fresta þessum aðgerðum gegn hópferðunum. Við vitum að það gerist allt mjög hægt hjá stjórnvöldum þannig að við töldum ekki efni til að verða við þeirri beiðni. Síðan þá eru liðin fjögur ár og ekkert hefur gerst í málinu af hálfu hins opinbera.“

Óskar tekur þó fram að Kerið sé ekki eini vanhirti ferðamannastaðurinn á Íslandi, því miður sé of algengt að fólk stígi niður í hveri og víða leynist slysagildrur á okkar vinsælustu ferðamannastöðum. Að hans mati þarf að taka upp gjaldheimtu á þessum stöðum eða lagfæra þá með öðrum hætti. Allt hefur þetta vakið upp umræðu um eignarhald á landi og vinsælum ferðamannastöðum. Óskar segir það í raun ekki skipta máli hver sé eigandi svæðanna, það sem skipti máli er að sá sem nýti landið greiði fyrir það til að mæta tilheyrandi kostnaði við viðhald.

„Ef ríkið á Gullfoss og allir fara þangað er meira slit á því svæði. En með gjaldheimtu kemur líka meira fjármagn til að viðhalda staðnum og bæta þar aðstöðu. Hér á að gilda einföld regla; sá sem skemmir á að bæta fyrir þær skemmdir, ekki einhver annar,“ segir Óskar.

„Um þetta þarf að ríkja eining. Stærstur hluti ferðamanna er tilbúinn að greiða aðgangseyri að vinsælum og fallegum stöðum. Þegar við tókum við Kerinu árið 2000 þá var landslagið mjög illa farið. Það var mikil drulla á göngustígum og bílastæðin voru mjög illa farin. Fyrri eigendur treystu sér ekki lengur til að viðhalda svæðinu á eigin kostnað, eðlilega. Á þessum tíma höfðu verið uppi áform um að gera þarna endurbætur og þær fólu m.a. það í sér að byggja stóran stálpall út í mitt Kerið. Ríkið féll sem betur fer frá þessari fáránlegu hugmynd og þess í stað náðist samkomulag um að ríkið myndi laga aðstöðuna. Það var farið í endurbætur á bílastæðinu og aðkeyrslunni frá þjóðveginum auk þess að nokkrir göngustígar voru endurbættir. Þetta kostaði fjórar milljónir og var kostað af ríkinu fyrir 12 árum. Menn tala um að ríkið hafi byggt upp alla þessa aðstöðu, en það nær nú ekki lengra en þetta. Árið 2008 var svæðið aftur orðið svo slæmt að við neyddumst til að loka því fyrir skipulögðum hópferðum eins og ég sagði áður. Því er ekkert öðruvísi farið þó svo að kínverskir ráðamenn séu hér í heimsókn. Það breytir engu fyrir náttúruna hvort það eru kínverskir og íslenskir fínimenn á ferð eða kór eldri borgara á Akranesi. En sjálfum líkar mér betur við eldri borgarana.“

Nánar er rætt við Óskar í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Fyrir utan það að útskýra ákvörðun Kerfélagsins að meina kínverskum og íslenskum stjórnmálamönnum aðgang að Kerinu um miðjan apríl svarar Óskar spurningum um erfiðan rekstur Morgunblaðsins, umdeild ritstjóraskipti, átök blaðsins í þjóðmálaumræðunni og það hvort tækninýjungar séu ógn eða tækifæri fyrir blaðið.