Óskar Már Ásmundsson hefur tekið til starfa sem forstöðumaður Innflutningsdeildar hjá Eimskip segir í tilkynningu félagsins. Áætluð velta Innflutningsdeildar fyrir árið 2006 er um 7 milljarðar íslenskra króna, en starfssvið deildarinnar er fyrst og fremst afurðaþróun, sala og þjónusta til viðskiptavina í innflutningi.

"Nú eru áhugaverðir og krefjandi tímar í flutningaþjónustu," segir Óskar Már í tilkynningunni. "Innflutningur á almennri neysluvöru og vöru til stórframkvæmda er í sögulegu hámarki, en á sama tíma eru útflytjendur í erfiðri stöðu, m.a. vegna sterks gengis íslensku krónunnar. Afleiðingin er gríðarlegt ójafnvægi í flutningum til og frá Íslandi með tilheyrandi erfiðum áhrifum."

Óskar Már kemur til Eimskips frá Samskipum þar sem hann á áralanga reynslu að baki sem deildar- og sölustjóri innflutningsdeildar.

Um Eimskip

Eimskip býður heildarþjónustu í flutningum. Þjónustunet Eimskips er sett saman af 54 skrifstofum félagsins í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu, um 30 skipum og 15 frystigeymslum í Evrópu, N-Ameríku og Asíu, ásamt ýmsum dótturfélögum og samstarfsaðilum.

Um Avion Group

Avion Group starfrækir 85 starfsstöðvar víðs vegar um heiminn og starfsmenn félagsins eru á fimmta þúsund. Avion Group stefnir að því að verða öflugasta fjárfestingafélag í heimi á sviði flutningastarfsemi.