Það er ljóst að Morgunblaðið hefur staðið í mikilli baráttu síðustu ár og í viðtali við Viðskiptablaðið fer Óskar Magnússon yfir ástæður þess að skipt var um ritstjóra á blaðinu og hvernig hann taldi rétt að Morgunblaðið tæki sér stöðu í ákveðnum málum, t.d. Icesave málinu. Óskar lýsir því þannig að blaðið hafi siglt úr kyrrlátu logni út í brimgarðinn.

En einhvern tímann hljóta menn að staldra við og meta árangurinn.

„Ég held að sá árangur sé ótvíræður, t.d. í Icesave-málinu,“ segir Óskar aðspurður um þetta.

„Ég þakka Morgunblaðinu að miklu leyti hvernig það mál fór. Það má þó ekki gleyma mjög öflugu starfi sjálfsprottinna hreyfinga í því máli, en ef fjölmiðill á borð við Morgunblaðið hefði ekki beitt sér eins og það gerði þá tel ég að Icesave-málið væri í öðrum farvegi núna og orðinn mikill skuldabaggi á þessari þjóð.“

Óskar ítrekar að baráttan hafi fyrst og fremst farið fram með ritstjórnarefni blaðsins, þ.e. leiðurum, Reykjavíkurbréfum o.s.frv. Þó hafi líka verið lög áhersla á að fjalla mikið um málið á fréttasíðum blaðsins.

„Við lögðum áherslu á að fjalla mikið um málið frá öllum hliðum, en ekki bara taka við tilkynningum frá stjórnvöldum um þetta mikilvæga mál,“ segir Óskar.

„Ég tel samt að við höfum fjallað um málið með heiðarlegum og faglegum hætti í fréttum okkar, enda voru það þaulreyndir og vandaðir blaðamenn Morgunblaðsins og mbl.is sem það gerðu.“

Nánar er rætt við Óskar í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar svarar Óskar spurningum um erfiðan rekstur, umdeild ritstjóraskipti, átök blaðsins í þjóðmálaumræðunni og það hvort tækninýjungar séu ógn eða tækifæri fyrir blaðið. Þá tjáir Óskar sig um ákvörðun Kerfélagsins að meina kínverskum og íslenskum stjórnmálamönnum aðgang að Kerinu um miðjan apríl.