Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, þakkar þeim Framsóknarmönnum sem yfirgefið hafa flokkinn fyrir störf þeirra í þágu flokksins og óskar þeim alls hins besta í opnu bréfi til Framsóknarmanna. „Það er nauðsynlegt að við núverandi aðstæður að taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það gerum við með samstöðu og samvinnu alls þess góða fólks sem í flokknum starfar og stuðningsmanna hans,“ skrifar formaðurinn.

Hann hvetur Framsóknarmenn til að standa saman og segir stöðu Framsóknarflokksins sterka. Hann segir það hlutverk flokksins að minna eiga og byggja upp „nauðsynlega innviði í velferðarkerfinu“. Sigurður Ingi leggur áherslu á að flokkurinn þurfi að byggja upp traust og stöðugleika. Hann vill öfluga uppbyggingu í heilbrigðis- og skólamálum „með markvissri stefnu um land allt til að tryggja almenningi, ekki síst öldruðum og ungum viðunandi lífskjör, óháð búsetu.“

Enn fremur leggur formaður Framsóknarflokksins áherslu á að tryggja stórbætt samgöngukerfi og fjölmörg önnur mál, til dæmis áherslu á sjálfbæra ferðaþjónustu. „Ég vil starfa með flokkum sem vilja öflugt heilbrigðis- og menntakerfi og samgöngur. Bæta kjör þeirra sem lakast standa m.a. aldraðra, öryrkja og barna. Endurbæta skattkerfið til að létta skattbyrði hjá fólki með milli- og lægri tekjur en hækka á hátekjur,“ skrifar hann enn fremur.