Í viðtali við Óskar Magnússon, útgefanda Morgunblaðsins, er m.a. farið yfir umdeild ritstjóraskipti á blaðinu haustið 2009 og þátttöku Morgunblaðsins í umræðunni um stór þjóðfélagsmál.

Hér birtist stuttur kafli úr viðtalinu:

Óskar víkur að fyrra bragði umræðunni aftur að ritstjórunum og segist telja að ráðning þeirra hafi reynst mjög vel.

„Haraldur [Johannesson] er mjög fær og vandvirkur ritstjóri. Hann ber ábyrgð á rekstri stærstu deildarinnar, ritstjórnarinnar. Hér er um 90 manna ritstjórn þegar allt er talið með. Enginn annar fjölmiðill á Íslandi hefur yfir slíku ritstjórnarlegu afli að ráða,“ segir Óskar.

„Með ráðningunni á Davíð [Oddssyni] vorum við að sækjast eftir ákveðnum hlutum sem hann býr yfir og sennilega enginn annar. Það kemur í ljós að á sama tíma og þeir sem tala hvað mest gegn blaðinu, tala um blaðið sem jaðarblað og að hér séu allir áskrifendur farnir o.s.frv., það eru þeir sem eru grátandi og kveinandi undan blaðinu alla daga. Það er í það minnsta ekki áhrifalausara en svo. Ég held að allir þeir sem láta sig þjóðmál eitthvað varða og þykjast ekki lesa Morgunblaðið, þeir geri það samt. Þeir tala af slíkri þekkingu um það sem er að finna í blaðinu að þeir geta ekki hafa heyrt það af orðsporinu einu svona ítrekað,“ segir Óskar og glottir.

Nánar er rætt við Óskar í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar svarar Óskar spurningum um erfiðan rekstur, umdeild ritstjóraskipti, átök blaðsins í þjóðmálaumræðunni og það hvort tækninýjungar séu ógn eða tækifæri fyrir blaðið. Þá tjáir Óskar sig um ákvörðun Kerfélagsins að meina kínverskum og íslenskum stjórnmálamönnum aðgang að Kerinu um miðjan apríl.